Félag ábyrgra hundaeigenda var stofnað 2012 af hundaeigendum sem bjuggu nálægt Klambratúni í Reykjavík. Fyrsta markmið félagsins var að koma upp hundagerði á Klambratúni, en sú hugmynd mætti mikilli andstöðu hverfisráðs og hefur ekki enn orðið að veruleika þrátt fyrir að hugmyndin hafi hlotið kosningu hjá Betri Reykjavík á sínum tíma.
Markmið félagsins þróuðust yfir í að koma upp hundagerðum í öllum hverfum borgarinnar, og hundasvæðum í stærstu sveitarfélögum landsins. 3 ný hundagerði voru samþykkt í Reykjavík sama ár og félagið var stofnað, og FÁH kom á framfæri ráðleggingum varðandi hönnun gerðanna. En þar sem félagið var nýtt og ekki búið að festa sig í sessi, var ekki hlustað á FÁH, og það spruttu upp 3 hundagerði við BSÍ, í Laugardag og í Breiðholti. Gerðin voru allt of lítil, með einföldu hliði, með slæmt undirlag og ekki hundheld. Eftir ábendingar FÁH voru gerðin lagfærð, þannig að hundar slyppu allavega ekki út með góðu móti.
Í áranna rás hefur FÁH fest sig betur í sessi, og farið á fjölmarga fundi og verið í samskiptum við Reykjavíkurborg. Ný gerði hafa nýlega verið hönnuð fyrir önnur hverfi í Reykjavík, og í þetta sinn verið tekið tillit til ráðlegginga FÁH, t.d. að hafa tvöfalt hlið. Einnig hefur verið skipt um undirlag í gömlu gerðunum, og Reykjavíkurborg greiddi efniskostnað við leiktæki sem FÁH setti upp í gerðunum sumarið 2019.