Search
Close this search box.

Lög félagsins

I Heiti, hlutverk og skyldur.

1.gr.

Nafn félagsins er Félag ábyrgra hundaeigenda.

2.gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3.gr.

Félagið er félag áhugamanna og stundar engan atvinnurekstur. Tilgangur félagsins er að vinna að bættum hag hunda og hundaeigenda m.a. með því að:

a) vinna að bættri hundamenningu á Íslandi

b) stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlum um málefni hunda

c) taka virkan þátt í umræðu um málefni hunda meðal opinberra aðila og í fjölmiðlum

d) stuðla að málefnalegri umræðu um hundahald og öðru því tengdu

II Aðild og fjárreiður.

4.gr.

Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar sem vilja vinna að bættri hundamenningu á Íslandi í samræmi við hlutverk og skuldbindingar félagsins samkvæmt lögum þessum. Fullgildir félagsmenn teljast þeir sem skráðir eru í félagaskrá 1. janúar ár hvert og greitt hafa félagsgjald a.m.k. 15 dögum fyrir aðalfund. Fullgildir félagar hafa atkvæðisrétt og geta gefið kost á sér til stjórnarset á næsta aðalfundi. Nýir félagar sem ganga inn eftir 1. janúar ár hvert eru velkomnir á aðalfund félagsins það árið og hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins. Rétt til að greiða atkvæði á fundum félagsins og kjörgengi í stjórn og nefndir hafa einungis fullgildir félagar sem greitt hafa félagsgjöld. Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert og eru innheimt árlega.

Stjórn heldur félagaskrá félagsins, sér um samskipti við félagsmenn og innheimtu félagsgjalds. Félagaskrá má ekki láta af hendi til þriðja aðila, nema landslög standi til annars.

Félagsmönnum er óheimilt að tjá sig á opinberum vettvangi í nafni félagsins nema með samþykki stjórnar.

5. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

III Stjórn félagsins.

6. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð þremur til fimm stjórnarmönnum og allt að fimm varamönnum kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn.  Stjórn félagsins annast öll málefni þess og er í forsvari félagsins út á við.

Á aðalfundi skal skipa formann og gjaldkera, auk eins til þriggja meðstjórnenda.

Formaður er talsmaður félagsins. Formaður boðar til stjórnarfunda og hefur yfirumsjón með allri starfsemi félagsins, skipulagi og rekstri þess. Formaður getur falið stjórnarmönnum verkefni eftir því sem við á.

Stjórn skal halda fundarbók, rita fundargerðir félagsfunda og halda utan um ársskýrslu félagsins.

Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins, sér um innheimtu félagsgjalda og gerð ársreiknings.

Á stjórnarfundum ræður meirihluti atkvæða úrslitum.

IV Störf félagsins

7.gr.

Stjórn getur óskað eftir þátttöku félagsmanna í starfsemi þess og stofnað nefndir eða vinnuhópa til lengri eða skemmri tíma, eftir því sem verkefni eða aðstæður gefa tilefni til.

Stjórn skal semja starfsreglur stjórnar og endurskoða þær reglulega.

V Aðalfundur og kosningar.

8.gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega. Til hans skal boða með minnst 14 daga fyrirvara með auglýsingu á heima- og fésbókarsíðu félagsins. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagsmenn.

Á aðalfundi skal stjórn kynna ársskýrslu þar sem gerð er grein fyrir störfum félagsins á liðnu ári, kynna tillögur um verkefni næsta árs og leggja fram ársreikning félagsins til samþykktar.

Lagabreytingar má aðeins gera með samþykki aðalfundar. Tillögur um lagabreytingar skulu sendar stjórn a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund og kynntar á heima- og fésbókarsíðu félagsins a.m.k. 5 dögum fyrir aðalfund.

9.gr.

Stjórn félagsins skal kjörin á aðalfundi, í samræmi við 6.gr.

Framboð til stjórnarsetu skal berast stjórn a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund og kynnt á heima- og fésbókarsíðu félagsins a.m.k. 5 dögum fyrir aðalfund.

10.gr.

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi gildir hreinn meirihluti atkvæðisbærra félagsmanna sem á fundinn eru skráðir en tvo þriðju hluta þeirra þarf til lagabreytinga og allra meiriháttar breytinga á stefnu félagsins.

VI Slit félagsins.

11.gr.

Ákvörðun um félagsslit skal taka á aðalfundi með samþykki minnst 75% allra fullgildra félagsmanna samkvæmt 4.gr. sem mættir eru á aðalfund. Komi til félagsslita renna eignir félagsins til góðgerðamála tengdum málefnum dýra.

Samþykkt á aðalfundi 12. október 2019