Search
Close this search box.

FÁH Málþing 2020 – Haldið í gíslingu af hundaeftirlitinu

Hundum lógað

Árið 2016 sendi FÁH út spurningalista á sveitarfélög landsins með 20 spurningum. Þar á meðal var spurning sem hljóðaði svo: „Hversu mörgum hundum hefur verið lógað frá árinu 2000?“

Svör bárust frá fáeinum sveitarfélögum og miðað við þau svör, voru 5 hundum að lágmarki lógað árlega á vegum hundaeftirlita á Íslandi.

Með tilkomu samtaka eins og Dýrahjálpar, ætti aldrei að þurfa að lóga heilbrigðum hundum, það samræmist ekki lögum um dýravernd. Þessu ákvæði þarf að breyta í hundasamþykktum allra sveitarfélaga.

Hundum haldið í gíslingu

Hundaeftirlitin á Íslandi halda hundum, sem eru skv. lögum eign fólks, í hundageymslu ef réttmætur eigandi getur ekki greitt uppgefna upphæð strax á staðnum. Þetta á við hvort sem um er að ræða skráðan eða óskráðan hund. Það að hundurinn fái ekki að sameinast eiganda sínum eins fljótt og auðið er, er óþarfa álag á hundinn og mætti líkja við gíslatöku, þar sem hundinum er refsað fyrir brot eigandans. Allar aðrar sektir í okkar samfélagi fara fram með greiðsluseðli í heimabanka, og sendar í innheimtu ef greiðsla berst ekki fyrir eindaga. Af hverju gilda aðrar reglur um hunda? Þetta eru lifandi verur og taka ber tillit til velferðar dýranna ofar refsingu eigenda þeirra.

Ef eigandi hundsins getur ekki greitt umbeðna upphæð innan viku, þá er hundinum komið annað eða lógað. Þessar upphæðir eru misháar eftir sveitarfélögum, og misháar eftir því hvort hundurinn er skráður eða óskráður hjá sveitarfélagi. Umbeðin upphæð getur verið frá 30.000 kr og allt upp í 100.000 kr, og það er ekki á allra færi að reiða slíkar upphæðir fram með engum fyrirvara.

Það er kominn tími til að uppfæra þennan part af hundasamþykktum allra sveitarfélaga. Núverandi reglur bera vott um úrelta fordóma gagnvart hundahaldi og eru ekki í takt við almenna gjaldheimtu í nútíma samfélagi.