Search
Close this search box.

Hálfa milljón kostar að fanga hvern hund í Reykjavík

Miðvikudagur, 8. March 2017 – 14:30

Ég er hundaeigandi, dýralæknir og hundaþjálfari, og fyrir nokkrum árum var ég ein af þeim sem borgaði hundaleyfisgjöldin samviskusamlega og hvatti aðra hundaeigendur til að gera slíkt hið sama. Það er hagsmunamál allra að hafa alla hunda í borginni skráða, þannig að við höfum skýra mynd af fjölda hunda í höfuðborginni, og auðvitað helst á landinu öllu. Ég stóð líka í þeirri trú að hundaleyfisgjöldin færu ekki bara í hundaeftirlit, heldur einnig í þjónustu við hundaeigendur, bætta aðstöðu fyrir lausagöngu og svo framvegis.

En fljótlega varð mér ljóst að þjónusta við hundaeigendur í borginni væri nánast engin, aðstaða til lausagöngu væri til skammar og í raun mætti ekki nýta tekjur borgarinnar af hundaleyfisgjaldi í neitt annað en hundaeftirlit. En tekjur af hundaleyfisgjöldum eru um 35 milljónir í Reykjavík, og samtals um 70 milljónir á höfuðborgarsvæðinu öllu, hvernig getur það passað að hundaeftirlit sé svona dýrt í rekstri? Þá fór ég að reyna að grúska í bókhaldi Reykjavíkurborgar. Í fyrstu gekk það erfiðlega, því þær tölur sem voru opinberar voru lítið sundurliðaðar, og því erfitt að henda reiður á hvað fælist í þessum gríðarmikla kostnaði við hundaeftirlitið. Nú hafa árin liðið og eftir þrýsting frá Félagi ábyrgra hundaeigenda, og fleiri hundaeigendum, hefur bókhaldið smátt og smátt orðið sýnilegra og meira sundurliðað. Eftir að hafa rýnt í tölurnar aftur og aftur og klórað mér í hausnum, þá kemst ég ekki að annari niðurstöðu en að hundaeftirlitið í Reykjavík sé ekkert annað en stórkostleg sóun á fjármunum hundaeigenda.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að þó að ég fari einungis í tölur Reykjavíkurborgar, þá er það ekki vegna þess að öll önnur sveitarfélög séu hafin yfir gagnrýni. Síður en svo. Ég held það þurfi algjöra endurskoðun á því formi hundaeftirlits sem hefur verið við lýði í flestum sveitarfélögum á Íslandi síðastliðna áratugi. En þar sem Reykjavík er stærsta sveitarfélagið, þótti okkur í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda eðlilegt að byrja rannsóknarvinnuna í bókhaldi Reykjavíkur.

Hægt er að sjá rekstaryfirlit hundaeftirlitsins síðastliðin 6 ár HÉR á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Hundaeigendur í Reykjavík greiða 35 milljónir á ári í formi hundaleyfisgjalda, sem fer í að halda uppi hundaeftirlitinu. Stór partur af þessu, 23 milljónir, fer í að greiða laun starfsmanna hundaeftirlitsins. Starfsmennirnir eru þrír, þ.e.a.s. tveir hundaeftirlitsmenn og einn ritari, og svo greiða hundaeigendur líka 30% af launum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins, þrátt fyrir að hundaeftirlitið sé aðeins 12% af heilbrigðiseftirlitinu, ef miðað er við fjölda starfsmanna.

Á síðasta ári þurfti hundaeftirlitið að sinna 62 lausagöngumálum, þar af þurfti að vista 11 hunda í geymslu. 62 lausir hundar á einu ári, það eru ekki nema rúmlega 1 hundur á viku.

Í stuttu máli sagt þarf tvo hundaeftirlitsmenn í fullu starfi, til að fanga einn til tvo hunda á viku. Og þeir eru svo uppteknir við það að þeir hafa ekki tíma til að sinna starfi ritara hundaeftirlitsins, en helsta starf ritarans er að taka á móti að meðaltali 4 nýskráningum á viku. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvort þessir þrír starfsmenn sem eru í 100% starfi hjá hundaeftirlitinu, séu í öðrum verkefnum ótengdum hundaeftirliti. 

Ég leyfi mér að efast um að það þurfi 3,3 starfsmenn til að sinna hundaeftirliti í Reykjavík og ég kalla hér með eftir óháðri úttekt á verkefnum þessara starfsmanna til að komast að því hvort verið sé að misnota fé hundaeigenda. Og ef maðkur er í mysunni í ráðstöfun á tekjum hundaeftirlits, gæti verið að það sé víðar í bókhaldi Reykjavíkurborgar? Það vantar hreinlega ársskýrslu hundaeftirlits til að átta sig almennilega á því í hvað peningarnir eru að fara, en slík ársskýrsla er hvergi opinber.    Rekstraryfirlit með grófri sundurliðun gefur of óljósa mynd. Þarna eru t.d tæpar 3 milljónir í „annar rekstrarkostnaður“ og svo er þarna undarlega há húsaleiga, 300 þúsund krónur á mánuði fyrir þessa þrjá starfsmenn. Svo fara rúmlega 5 milljónir í tryggingar, en þarna er um að ræða ábyrgðartrygging fyrir tjóni gegn þriðja aðila. Vandamálið við þessa tryggingu er að fáir vita af henni og hún er því lítið sem aldrei nýtt, enda hafa skilmálar og aðrar upplýsingar um trygginguna aldrei verið aðgengilegar hundaeigendum fyrr en í fyrsta sinn fyrir örfáum mánuðum síðan.  

Ef við veltum fyrir okkur fyrirbærinu hundaeftirlit, þá hlýtur megintilgangur þess vera sá að svara fyrirspurnum um lausagöngu og bregðast við því. En ef lausagöngumálin sem eftirlitið sinnir, eru jafn fá og raun ber vitni, þá er það rándýrt að sækja hvern hund. Í fyrirsögn greinarinnar henti ég upp tölu sem var gróflega reiknuð svona:

35 milljónir – 5 milljónir (ábyrgðartrygging) = 30 miljónir

30 milljónir / 62 lausir hundar = 480 þúsund eða u.þ.b. hálf milljón

Sem sagt það kostar hálfa milljón að fanga hvern hund í Reykjavík. Hér er um að ræða grófa misnotkun á fjármunum hundaeigenda, og getur verið að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum?

Freyja Kristinsdóttir

Stjórnarmaður í Félagi ábyrgra hundaeigenda