Search
Close this search box.

Gallað íslenskt hundaeftirlit – Hvernig er þetta í öðrum löndum?

Miðvikudagur, 8. March 2017 – 15:30

Hver  hundaeigandi í Reykjavík á að greiða til sveitarfélagsins 20 þúsund krónur á ári fyrir hvern hund. Af hverju? Er einhver fyrirmynd að þessu erlendis frá?

Ég hef leitað að upplýsingum um þetta í nokkrum löndum sem við berum okkur oft saman við, og hvergi finn ég hliðstæðu við þetta hundaleyfisgjald á Íslandi. Í nágrannalöndum okkar þarf aldrei að greiða hundaleyfisgjald, en oftast er skylda að skrá hundinn í örmerkjagagnagrunn. Það er þá bara eitt gjald í upphafi (oftast um 1.000-2.000 kr) og síðan ekki söguna meir.

En hvernig fara hin löndin að því að halda uppi hundaeftirliti, þegar hundaeigendur greiða ekki fyrir það sérstaklega? Svarið er einfalt. Það er ekkert sérstakt hundaeftirlit. Hver er svo sem tilgangur hundaeftirlits? Að fanga hunda sem sleppa?

Staðreyndin er sú að hundaeftirlitið kemur ekki nálægt nema brotabroti af þeim hundum sem sleppa lausir. Flestir hundanna finnast á innan við klukkutíma með hjálp hins öfluga Hundasamfélags á Facebook. Enda vinna hundaeftirlitsmennirnir bara á virkum dögum. Og flestir hundar sleppa lausir á kvöldin og um helgar.

Í Danmörku er ekkert hundaeftirlit. Ef þú finnur lausan hund í Danmörku, þá áttu að hafa samband við lögreglu, sem er með örmerkjaskanna og getur komið hundinum til síns heima eða í dýraathvarf. Sem sagt ekkert hundaeftirlit. Ég mæli nú reyndar ekkert endilega með því fyrirkomulagi hér á landi þar sem lögreglan hér er þekkt fyrir að svara „slepptu hundinum bara aftur, hann hlýtur að rata heim“. Það er semsagt lögreglan sem á að sinna lausum hundum þegar hundaeftirlitsmenn eru ekki á vakt. Viðbrögð lögreglunnar er kannski skiljanleg í ljósi þess að lögreglan líður fyrir fjárskort og er allt of fáliðuð, og metur það sem svo að lausir hundar séu ekki forgangsmál. En þetta er gott dæmi um hvað hundaeftirlitskerfið á Íslandi er gallað. Ekki bara rándýrt, heldur einnig allt að því gagnslaust.

Í stað þess að blanda lögreglunni í málið, hvernig væri að bjóða þetta verkefni út? Þetta væri tilvalið verkefni fyrir öryggisfyrirtækin. Nú þegar greiðir hundaeigandi 30 þúsund krónur í handsömunargjald (til viðbótar við hinar árlegu 20 þúsund krónur) ef hundurinn hans er fangaður af hundaeftirlitinu. En útkall hjá öryggisþjónustum kostar líklega ekki meira en handsömunargjald Reykjavíkurborgar. Nú geta einhverjir sagt: „en öryggisverðir eru ekki með neina sérþekkingu á hundum“. En þá get ég upplýst ykkur um það að hundaeftirlitsmennirnir eru ekki með það heldur. Allavega ekki þessir tveir í Reykjavík, það hef ég fengið staðfest hjá Reykjavíkurborg. Hins vegar eru öryggisverðir vanir að bregðast við ýmsum aðstæðum, m.a. að koma í mannlaust hús þar sem einungis heimilishundurinn er til staðar, sem getur brugðist við eins og versti varðhundur.

Nú  ætla ég að koma með tillögu. Leggjum niður hundaeftirlit sveitarfélaganna. Skráum alla hunda í örmerkjagagnagrunn Dýralæknafélagsins (dyraaudkenni.is). Látum hundasamfélagið og öryggisþjónustur sjá um lausa hunda. Þetta yrði mun ódýrara og mun skilvirkara kerfi. Ég er viss um að fleiri myndu skrá hundana sína og við fengjum þar með raunhæfari tölur um fjölda hunda á Íslandi.

Í upphafi fyrri greinar minnar sagðist ég hafa greitt hundaleyfisgjöldin samviskusamlega. Það  hef ég gert þangað til núna. Ég er löghlýðinn borgari og ábyrgur hundaeigandi, en ég læt ekki hafa mig að fífli lengur.

Í 25. gr laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir: Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“

Í 12.grein Hundasamþykktar Reykjavíkur stendur: Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu og framkvæmd samþykktar þessarar.“

Ég ætla ekki að greiða hundaleyfisgjaldið fyrr en það er komið á hreint að þessir peningar séu raunverulega og eingöngu notaðir í að framfylgja hundasamþykktinni og standa undir kostnaði borgarinnar við hundahald, lögum samkvæmt. En helst vildi ég auðvitað að þetta gjald yrði lagt niður og við tökum upp kerfi líkara nágrannaþjóðum okkar.

Hundaeigendur – leggjumst nú á eitt og krefjumst þess að gerð verði endurskoðun á hundaeftirlitskerfi sveitarfélaganna. Látum ekki kúga okkur lengur!

Freyja Kristinsdóttir

Stjórnarmaður í Félagi ábyrgra hundaeigenda