Search
Close this search box.

FÁH Málþing 2020 – hvert fór milljarðurinn

Skattpíning á hundaeigendur

Flest sveitarfélög landsins krefja hundaeigendur um eftirlitsgjald. Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir 7/1998 má ekki nýta þessa fjármuni í annað en það sem kostar að halda uppi hundaeftirliti. (59 gr. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.) Stærstu sveitarfélög landsins hafa innheimt rúman milljarð í hundaeftirlitsgjöld síðastliðin 13 ár, en í hvað hefur þessi peningur farið? Hundaeigendur spyrja sig því þessir fjármunir virðast ekki gagnast hundaeigendum né samfélaginu á nokkurn hátt.

Hundaeftirlit Reykjavíkur

Eins og sjá má af línuritunum hér að neðan, hefur verkefnum hundaeftirlitsins í Reykjavík fækkað um 70-90% undanfarin ár, en á sama tíma eykst rekstrarkostnaður hundaeftirlitsins um 60%. Hvernig getur það staðist að það verði dýrara að reka hundaeftirlit eftir því sem verkefnum fækkar? Ástæðan fyrir fækkun verkefna hjá hundaeftirlitinu er sú að Hundasamfélagið á facebook hefur tekið við þeim hluta starfseminnar sem felst í að koma lausum hundum til síns heima. Einnig er hundahald orðið eðlilegur partur af íslensku samfélagi og umburðarlyndi hefur aukist. Þess vegna hefur kvörtunum snarfækkað.

Stærsti kostnaður við rekstur hundaeftirlitsins í Reykjavík er launakostnaður. Hundaeigendur greiða laun þriggja starfsmanna í fullu starfi, auk 30% af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlitsins. Samt sem áður er engin tíma- eða verkefnaskráning þessara starfsmanna, og því engin leið fyrir hundaeigendur að tryggja það að fjármunirnir fari í verkefni tengd hundahaldi.

Hundaeftirlit Akureyrarbæjar

Á Akureyri var „Hreinsa upp hundaskít“ tvær og hálf milljón, og þar einn af stærstu útgjaldaliðunum í sundurliðuðu bókhaldi hundaeftirlits árið 2018. Þegar Félag hundaeigenda á Akureyri spurði nánar út í þennan útgjaldalið var svarið eftirfarandi: „Það er nánast ekkert sem starfsmenn bæjarins þurfa orðið að týna upp af hundaskít. Kostnaðurinn við liðinn Hreinsa upp hundaskít skýrist af losun á rusladöllum við stofnstíga bæjarins, einnig er losun á rusladöllum á hundasvæðum þar inn í.“
Sem sagt hundaeigendur á Akureyri standa undir kostnaði á losun á almennum ruslafötum bæjarins! Það getur engan vegin staðist þau lög og reglur um að fjármunir hundaeftirlits megi einungis nýta í kostnað við að framfylgja hundasamþykkt.

Hundaeftirlit Mosfellsbæjar

Í Mosfellsbæ eru hundaleyfisgjöldin meðal annars nýtt í að greiða Hundahótelinu að Leirum 1 milljón á ári, fyrir að halda 1 búri lausu 365 daga ársins. Hversu oft var það búr nýtt á árinu 2019? Svarið er aldrei. Það þurfti enginn hundur í Mosfellsbæ að gista í hundageymslu árið 2019. Er þetta góð nýting á fjármunum hundaeigenda?

Sveitarfélagið Dalabyggð

Í Dalabyggð er skylda að skrá hunda og greiða árlegt hundaleyfisgjald. Samt sem áður er þar ekki starfandi sérstakur hunda- eða dýraeftirlitsmaður, og engin hundageymsla. Það er því óljóst í hvað þeir fjármunir sem safnast af hundaleyfisgjöldum fara. Samkvæmt lögum má ekki nýta þetta í annað en það sem kostar að halda uppi hundaeftirliti.

Önnur sveitarfélög.

Svipað er uppi á teningnum með önnur sveitarfélög í landinu. Rekstrarkostnaður hundaeftirlits er víðast hvar ekki opinber, og þegar spurt er um slíkt er fátt um svör. Það er því engin leið fyrir hundaeigendur að komast að því í hvað þessir peningar fara, og hvort sveitarfélögin fari eftir lögum og nýti peningana einungis í verkefni tengd hundahaldi.