Search
Close this search box.

Félag ábyrgra hundaeigenda svarar Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Föstudagur, 10. March 2017 – 1:00

Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir, hundaþjálfari og stjórnarmaður í FÁH skrifar:

Félag ábyrgra hundaeigenda vill koma eftirfarandi leiðréttingum og athugasemdum á framfæri í tilefni af yfirlýsingu Heilbrigðiseftirlitsins á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Þetta er einfaldlega ekki rétt. FÁH hefur aldrei hvatt fólk til að greiða ekki hundaleyfisgjaldið. Þvert á móti hefur FÁH í gegnum tíðina hvatt fólk til að skrá hunda sína og greiða hundaleyfisgjald, og sett inn leiðbeiningar þess efnis á heimasíðu sinni.

Hins vegar sagðist ég persónulega ekki ætla að greiða gjaldið fyrr en ég væri þess fullviss að engin lög væru brotin í þessari gjaldtöku.

Í 25. gr laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir: Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“

Semsagt meginmarkmið hundasamþykktarinnar er að vernda borgarbúa gagnvart þessum óheilnæmu og skítugu hundum sem skerða lífsskilyrði fólks. Hundaeigendur eiga semsagt að greiða fyrir þá heimtufrekju að vilja halda hund í borginni, öllum öðrum til ama. Einhverskonar fyrirfram skaðabótagreiðsla.

Þetta er auðvitað ekkert annað en fordómar í garð hundaeigenda og brýtur í bága við jafnræðisregluna. Þetta eru greinilega leyfar frá þeim tíma þegar hundahald í borginni var bannað og fyrirlitið.

Samkvæmt svörum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur má þetta gjald semsagt ekki fara í nokkra þjónustu við hundaeigendur, ekki í bætta aðstöðu til lausagöngu eða neitt þess háttar.

Í því ljósi er áhugavert að skoða heimasíðu Hundaeftirlitsins en þar stendur meðal annars:  „Markmið hundaeftirlits eru að bæta hundahald í borginni með aukinni fræðslu til hundaeigenda og borgarbúa og að fækka óskráðum hundum í borginni.“

Við höfum leitað hátt og lágt að þessari fræðslu hundaeftirlitsins, en hún finnst hvergi. 

Það er ánægjulegt að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skuli loksins sjá sér fært að svara með nákvæmari hætti hver störf hundaeftirlitsins eru, en FÁH hefur sent allmargar fyrirspurnir í gegnum tíðina en aldrei fengið þessa tölfræði fyrr en nú.

En skoðum þetta nánar. Þetta eru að meðaltali 6 símtöl á dag, 0-1 kvörtun á dag, 1 laus hundur á viku. Ritarinn sér um símtölin 6, og hundaeftirlitsmennirnir um þessa 1 kvörtun á dag, og svo skiptast þeir á að sækja þennan 1 lausa hund á viku. 

Rekstur hundaeftirlits er semsagt algjörlega óháður rekstri heilbrigðiseftirlits, samkvæmt svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Þá er áhugavert að skoða starf hins svokallaða ritara hundaeftirlits. Ég hef aldrei heyrt um þennan ritara, aldrei talað við hann þegar ég hef hringt og spurt um hundamál hjá borginni, aldrei fengið svar frá honum þegar ég hef skrifað hundaeftirlitinu tölvupóst. Það mætti halda að þessi ritari sé ekki til? Samt eru hundaeigendur að greiða laun þessa ritara að fullu.

Hundaeigandi nokkur skrifaði eftirfarandi komment á facebook í gær:

Það virðist sem starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kannist ekki við að það sé einhver einn ákveðinn ritari Hundaeftirlitsins. Og við einfaldri fyrirspurn eins og að afskrá hund, er bent á hundaeftirlitsmann, ekki ritara hundaeftirlits. Leiða má að því líkur að ritarar Heilbrigðiseftirlitsins sinni starfi ritara hundaeftirlits í hjáverkum. Þar með er rekstur hundaeftirlits alls ekki aðskilinn frá rekstri heilbrigðiseftirlits.

Ég og við hjá FÁH gerum okkur fyllilega grein fyrir því. Þess vegna er nauðsynlegt að vekja athygli á málinu til að skapa þrýsting á breytingar á úreltum lögum sem byggja á gömlum fordómum. 

Það er alls ekki víða, fæst lönd innheimta árleg gjöld eins og ég kom inn á í grein minni. En hins vegar er skemmtilegt að Heilbrigðiseftirlitið skuli benda á Berlín sem er nokkurs konar „útópía“ allra hundaeigenda og var kosin “most dog-friendly city in Germany” af þarlendu tímariti.  Í Berlín fara hundaleyfisgjöldin í það að byggja upp hundasvæði og aðra þjónustu við hundaeigendur. Ég myndi glöð greiða 13 þúsund krónur í hundaleyfisgjöld á ári ef ég byggi í borg þar sem hundurinn minn er velkominn alls staðar, m.a. á veitingastaði, í verslunarmiðstöðvar og almenningssamgöngur.  Og með þvílíka hundagarða og hundaleiktæki út um alla borg. Það myndi gleðja mig mjög ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar myndi raunverulega nota Berlín sem fyrirmynd í hundamálum. 

Freyja Kristinsdóttir